Monday 26 March 2012

Ég horfði á Landann á sunnudaginn þar sem var verið að fjalla um bygðamál og EBS, eða réttara sagt hugsanlega styrki ESB til landsbyggðarinnar ef við göngum í ESB. Það var tími til þess að fjalla um þetta mál í sjónvarpi. Það hefur ekki mátt segja frá því að það eru talsverðar líkur á því að dreifbýlið á Íslandi fái verulega styrki frá ESB göngum við í sambandið. Það kom mér á óvart að það var líkt og þáttastjórnandinn legði sig fram við að draga fram það neikvæða við þessa styrki. Ég velti því fyrri mér hvort hvort að stjórnandinn væri á móti ESB slíkur var viljinn til þess að draga fram neikvæða við styrki til landsbyggðar. Eða hvort hann teldi það skyldu sína að draga allt það neikvæða til þess að vera ekki sakaður um áróður. Það vantaði bara að bæta við að peningar væru af hinu illa eða eitthvað í þá áttina eða að þeir sköpuðu ekki hamingju.

En það var ágætt að sagt væri frá þessum styrkjum. Þarna komu fram nokkrar staðreyndir sem getur varla verið slæmt að komi fram. Eða hvað? Jú Björn Bjarnason er ekki á sama máli. Honum finnst að vera áróður að segja fá hugsanlegum styrkjum ESB. Hann gengur jafnvel svo langt að saka RÚV um að "hafa bitið á agnið hjá Evrópustofu" Svona er umræðan kæfð. Um leið og farið er að segja frá hvað aðild að ESB þýðir er ekki tekist á um málefnin. Það er ekki farið og rætt efnislega um hvað er rangt og hvað er rétt. Hvað er umdeilanlegt og hvað eru staðreyndir sem hægt er að byggja umræðuna á. Nei, það er hrópað, hrópað nógu hátt til þess að kæfa umræðuna vegna þess að það sem andstæðingar ESB óttast mest er öfgalaus umræða.

Thursday 21 July 2011

Má heita Maxima en Marzellíus bannað

Á Vísi í dag 21 júlí 2011 er frétt um það að Mannanafnanefnd hafi heimilað kvenmannsnafnið Maxima og hefur það verið fært á mannanafnaskrá.Sjá frétt hér Á sama tíma var úrskurðað að nafnið Alexis væri gott og gilt. Gott mál að fólk hafi leyfi til þess aðákveða nöfn á börnin sín. Það á að treysta foreldrum fyrir því en ekki ríkinu.

Við hjónin höfum fengið neitun frá mannanafnanefnd að nefna son okkar Marzellíus sem annað nafn vegna þess að í því er z.

Afhverju er verið að halda úti þessari nefnd? Hver eru rökin fyrir því? Er það til þess að vernda börnin fyrir foreldrum sínum eða íslenskuna fyrir Íslendingum? Úrskurðir mannanafnanefndar sýna að hvorugt virðist vera markmiðið sem haft er í huga. Ef nafnið fellur að reglum og málhefð er það í lagi. Þetta er eitt dæmi af mörgum sem sýna það, stúlka má heita Maxima en við getum ekki skráð son okkar Marzellíus. Samt eru nokkrir sem heita Marzellíus í dag og er nafnið í móðurfjölskyldu hans sem kemur frá Ísafirði. Ömmubróðir hans sem býr fyrir vestan ber þetta nafn. Hann er náttúrulega uppnefndur Mazzi heitinn í dag.

Það er ný búið að samþykkja nafnið af mannanafnanefnd því afi strákssins hét Marzellíus. Það má s.s. nefna Marzellíus ef afi bar nafnið en ekki ef ömmubróðir heitir það! Allt eru þetta náttúrulega frændur.

Ég skil ekki af hverju það er ekki búið að breyta lögum og leggja mannanafnanefnd niður, þeir sem þar sitja ættu að sjá sóma sinn í því að hætta sjálfir.

Hér er mynd af Birgi Marzellíusi

Friday 24 June 2011

Matthías Már við gosstöðvar á Fimmvörðuhálsi


Martin að taka myndir af foss

Wednesday 11 May 2011

Klassík

Þessi auglýsing er við Hólavallakirkjugarð við hringbraut. Klassík

Sunday 8 May 2011

Bílafólkið

Var að hjóla með börnin um miðbæinn í dag. Á sumum stöðum í bænum er ekki hægt að hjóla vegna þess að bílum er lagt svo óskynsamlega svo ég taki ekki sterkar til orða. Ótrúlegt tilitsleysi við aðra þegar fólk leggur bílum upp á gangstéttir eins og sést á þessum myndum. í alvöru....

Friday 26 November 2010

Friday 15 October 2010

Fréttatíminn fær góðar viðtökur




Það er óhætt að segja að Fréttatíminn hafið fengið góðar viðtökur. Í fyrsta lagi tóku auglýsendur okkur afar vel og í öðru lagi hafa lesendur tekið blaðinu fagnandi.

Auglýsingapláss í fyrsta tölublaði seldist upp á miðvikudegi. Síðan hafa blöðin verið þétt eins og sjá má á þeim blöðum sem hafa komið út. Það sem skiptir líka máli er að auglýsendur eru almennt ánægðir.  Við teljum að hlutfall auglýsinga í blaðinu sé hæfilegt. Það má jú alltaf deila um hvað er hæfilegt magn af auglýsingum í fríblaði en við miðum við að blaðið beri sig og að blaðið beri auglýsingar vel. 

Það gladdi okkur mjög að lesendur hafa líka tekið okkur vel. Án þeirra er ekki hægt að gefa út blað, lesendur eru okkar auðlind ef svo mætti að orði komast og þar liggur tryggð okkar. 

MMR kannaði lestur á fyrsta blaðið og þá kom í ljós að 55,3 höfuðborgarbúa lásu fyrsta blaðið á fyrstu þremur dögum útgáfu. 49,1% fólks með háskólanám á landinu öllu lásu blaðið og 50% þeirra með tekjur yfir 800 þúsund á mánuði. Þetta er mæling á fyrstu helgi fyrsta blaðs. Þarna er vitneskjan um blaðið, vöruvitund, ekki há. Þessar tölur verða því að teljast mjög góðar. Til dæmis mældist Blaðið (ef einhver man eftir því blaði) með 27% lestur á landinu öllu eftir nokkurn tíma.  53,5% á landinu öllu í aldurshópnum 30 til 49 ára lásu Fréttatímann og til að nefna hliðstæður þá lesa að meðaltali 62,6% fólks á aldrinum 40 til 49 ára Fréttablaðið og 31,4% Morgunblaðið. Við erum að nálgast Fréttablaðið strax með fyrsta blaði.

Við gerðum líka könnun sjálf á lestri á annað tölublað. Ekki það að við ætlum að kynna hana sem niðurstöður sem auglýsendur geta byggt á. Ekki frekar en það ætti að kynna niðurstöður könnunar um keppinauta. Heldur gerðum við þetta til þess að fá viðbrögð frá lesendum og að kanna dreifingu. Við fengum 250 manna úrtak, fengið af Facebook. Þar var lesturinn rúmlega 80% meðal höfuðborgarbúa á annað tölublað og 88% höfðu lesið fyrstu tvö blöðin. Þannig að við gerum okkur væntingar um að lesturinn hafi aukist.

Eins og ég sagði var tilgangurinn fyrst og fremst að fá viðbrögð frá lesendum og það tókst. Við fengum viðbrögð sem nýtast okkur. Bæði ábendingar um það sem betur má fara og einnig hrós og fjölda hvatningarorða um að halda áfram að gefa út gott blað, engum háð. Okkur þótt gott að fá hvatninguna og ekki síður ábendingarnar, við ætlum að hlusta á það sem er sagt við okkur. Blaðið verður til og þróast í samvinnu við lesendur. Við erum s.s. að hlusta.

82% af þeim sem hafa lesið blaðið líkar vel við það eða mjög vel. 16% hvorki vel né illa og 2% sögðu að þeim líkað illa við blaðið. Þannig að lesendum hugnast blaðið vel, takk fyrir það.

Friday 13 August 2010

Vont en það vesnar

Það er nokkur langt síðan að dagblöðum var spáð dauða. Sú spá hefur ekki gengið eftir því eðlilega hafa dagblöð brugðist við breyttum aðstæðum og ógnunum í umhverfinu með því að aðlaga blöðin breyttum tímum. Þetta er að gerast um heim allann, blöð breytast eða þau deyja.

Könnun Capacent maí - júlí 2010
Stjórnendur Morgunblaðsins virðast hafa valið síðari kostinn. Þeir velja að halda áfram óbreyttu eða lítið breyttu blaði sem mun að endanum ganga af því dauðu.

Morgunblaðið hafði yfirburðastöðu á markaðinum fyrir 10 til 15 árum. DV var annað stærsta blaðið með lestur sem var langt um meiri en Morgunblaðið hefur í dag. Þá var lestur á DV um 50% og lestur á Morgunblaðið mun meiri.  Núna hefur fríblað tekið við stöðunni sem Morgunblaðið hafði áður og hefur yfirburðar stöðu en Morgunblaðið er að fara niður fyrir 30% meðallestur á næstunni geri þeir ekkert til þess að breyta stöðunni. Athugið að það er ekki um það að ræða að blaðið hafi hækkað verð og sé að fá meira út úr hverri áskrift heldur virðist verð vera lægra nú en það hefur oftast verið og auglýsingaverð er afar lágt vegna yfirburðarstöðu Fréttablaðsins og hversu snertiverð er lágt þar. Það hlítur því að vera verulegt tap á þessum rekstri.

Verstu fréttirnar fyrir Morgunblaðið og auglýsendur er að lesturinn er fyrst og fremst hjá fólki eldra en 50 ára. Um 20% fólks á aldrinum 12 til 40 ára les Morgunblaðið í dag og um 30% á aldrinum á milli 40 og 50 ára. Lestrinum er haldið uppi af fólki eldra en 50 ára. Það er því augljóst hvert stefnir.

Hugsanlega eru eigendur og stjórnendur að ná markmiðum sínum ef þau eru halda á lofti skoðunum eigenda og ritstjóra og verja hagsmuni þeirra.

Wednesday 7 July 2010

Morgunblaðið fann andstæðing ESB í Evrópu og vitnar í hann, nema hvað


Ekki ganga í ESB! - mbl.is Svo hljóðar fyrirsögn í mbl í dag. Tilefnið er ræða Nigel Farage á Evrópuþinginu í umræðum um aðildarumsókn Íslands. Nigel þessi er svarin andstæðingur ESB og sagði sig úr Íhaldsfloknum þegar þeir samþykktu inngöngu Breta í ESB. "Farage sagði m.a. að rætt væri um lítið samfélag í Norður-Atlantshafði sem búi við þúsund ára þingræðishefð, gott menntunarstig og þar sem fólk hugsi áður en það framkvæmir."Akkúrat, fólk sem hugsar áður en það framkvæmir. Allir sammála þessu?

Wednesday 30 June 2010

Einu sinni var…..

Ragnheiður Ríkharðsdóttir þingkona Sjálfstæðisflokksins skrifar á bloggið sitt í dag:

Þetta sagði Björn Bjarnason í grein árið 1991.
„Við erum þegar farin að sjá til þess hóps manna, sem þykist betur í stakk búinn en aðrir til að segja afdráttarlaust fyrir um það, að íslenska þjóðin glati sjálfstæði sínu, menningu og tungu með frekara samstarfi við aðrar þjóðir, einkum Evrópuþjóðirnar. Þeir sem þannig tala hafa þann sið að gera sem minnst úr málefnalegum rökum viðmælenda sinna og láta eins og þau hnígi öll að því að þurrka íslensku þjóðina út úr samfélagi þjóðanna. Hræðsluáróður af þessu tagi er alls ekki nýr í íslenskum stjórnmála umræðum. Kommúnistar héldu honum á loft um árabil í umræðum um varnir þjóðarinnar.“   „Þótt menn hafi ekki komist til botns í máli og geri ekki mikið meira en gára á því yfirborðið, stofna þeir samtök gegn málefninu. Er það til marks um einlægan vilja til málefnalegra umræðna?
Evrópumálin voru á dagskrá landsfundar Sjálfstæðisflokksins árið 1989.  Í skýrslu Aldamótanefndar, hverrar Davíð Oddsson var formaður, segir m.a. „Hugsanlega verður þó skynsamlegast að óska beinlínis eftir viðræðum um inngöngu Íslands í Evrópubandalagið, þótt menn séu um leið reiðubúnir að láta inngöngu ráðast af því, hvort þau skilyrði, sem henni kunna að fylgja, þyki aðgengileg eða ekki. Verði sú niðurstaðan, að þau séu óaðgengileg talin, hafa menn heldur engar brýr brotið að baki sér. Og þrátt fyrir allt er líklegt að smæð okkar verði okkur styrkur ásamt með því að við erum að véla við bandalagsþjóðir okkar í Atlantshafsbandalaginu og margar hefðbundnar vinaþjóðir, þar sem við njótum trausts.Það er því óheppilegt að borið hefur á því, að við séum sjálfir að búa okkur til skilyrði og mála skrattann á vegginn og þar með að veikja okkar eigin samningsstöðu er við mætum með sjálfskapaða annmarka til viðræðna við Evrópubandalagið.Við megum síst af öllu ganga að þessu viðfangsefni með þrá um forna innilokun og einangrun, alteknir af ótta og kjarkleysi. Við verðum að sýna reisn og styrk og forðast einangrunarþörf og minnimáttarkennd. Til slíkra viðræðna hljótum við að ganga sannfærðir um það að reyna að ná fram hinu besta, en jafnframt tilbúnir til þess að hverfa frá þeirri leiðinni, ef niðurstaðan er ekki þolanleg.“
Í mars 2009 sagði núverandi formaður Sjálfstæðisflokksins„En til lengri tíma finnst mér ólíklegt, að við getum aukið stöðugleikann með krónunni. Þess vegna hef ég verið talsmaður þess að við tökum afstöðu til Evrópusambandsaðildar á komandi árum.  Í pólitísku og peningamálalegu samhengi tel ég engan valkost jafn sterkan eins og evran með ESB-aðild. “
Einu sinni var ……